Birta er með þjónustusamning við Virk starfsendurhæfingarsjóð og býður upp á heildstætt starfsendurhæfingarúrræði . Starfsendurhæfing hjá Birtu er þannig eitt af þeim úrræðum sem stendur einstaklingum til boða sem þurfa starfsendurhæfingu á Suðurlandi. Til að komast í þjónustu hjá Birtu þarf tilvísun frá lækni til Virk starfsendurhæfingarsjóð. Læknir getur tilgreint í læknisvottorði að óskað sé eftir aðkomu Birtu starfsendurhæfingar. Inntökuteymi Virk fer yfir allar tilvísanir sem berast og vísar málum áfram.
Birta veitir heildstæða þjónustu sem tekur á vanda einstaklings með það að markmiði að viðkomandi komist út á vinnumarkaðinn á nýjan leik.
Endurhæfingin er einstaklingsmiðuð en fer fram í hóp.
Dæmi um hópaúrræði eru námskeið og fræðsla, lokaðir meðferðarhópar, leirlist, eldhúshópur o.fl.
Dæmi um einstaklingsúrræði: viðtöl hjá ráðgjöfum, sálfræðiviðtöl, félagsleg ráðgjöf, fjármálaráðgjöf, sjúkraþjálfun (skv. samningi sjúkraþjálfara við Virk).
Hægt er að stunda nám samhliða starfsendurhæfingu (að uppfylltum ákveðnum skilyrðum).
Vinnutenging hefst eins fljótt og einstaklingur er tilbúin(n) til. Það má vera í hlutastarfi samhliða starfsendurhæfingu (að uppfylltum ákveðnum skilyrðum). Vinnutenging getur verið í formi vinnustaðanáms, vinnuprufu, hlutastarfs eða í gegnum IPS (individual placement and support).
Hjá Birtu er hægt að stunda líkamsþjálfun í líkamsræktarsal með þjálfara tvisvar sinnum í viku, yoga og vatnsleikfimi.
Ráðgjafar Birtu veita fagaðilum og einstaklingum ráðgjöf varðandi möguleika til starfsendurhæfingar.
Hægt er að panta viðtal hjá ráðgjöfum Birtu í síma 560-2055. Einnig er hægt að senda tölvupóst á netfangið birta@birtastarfs.is.
Endurhæfing
Helstu markmið með starfsendurhæfingu hjá Birtu
- Að endurhæfa þátttakendur til atvinnuþátttöku og þar með auka lífsgæði þeirra og fjölskyldna þeirra.
- Að þátttakendur fari í atvinnu að endurhæfingu lokinni.
- Að endurhæfing fari fram í heimabyggð.
Fyrir hverja er Birta?
- Fólk sem hefur lent utan vinnumarkaðar af einhverjum ástæðum en vill styrkja stöðu sína með það að markmiði að komast aftur á vinnumarkað.
- Fólk með skerta vinnufærni af ýmsum orsökum.
- Einstaklinga með örorkumat eða endurhæfingarlífeyri og einstaklinga sem fá greiðslur frá lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbætur eða fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum.
Okkar markmið er hjálpa einstaklingum að bæta andlega og líkamlega heilsu sína og komast út í lífið á ný, annað hvort í áframhaldandi námað lokinni starfsendurhæfingu eða út á vinnumarkaðinn.
Helstu þættir sem unnið er með eru:
- Andleg vanlíðan.
- Sjálfstraust og sjálfsmynd.
- Líkamleg heilsa.
- Fjármál.
- Áhugasvið, færni og geta.
- Markmiðasetning, tímastjórnun.
Endurhæfingarleiðir hjá Birtu
Hjá Birtu eru í boði tvær heildstæðar leiðir í starfsendurhæfingu. Einnig er boðið upp á líkamsþjálfun hjá íþrótta- og heilsufræðingi og eftirfylgd sem stök úrræði.
Leiðir í starfsendurhæfingu:
• Mat á stöðu og starfsendurhæfingarmöguleikum. Um er að ræða endurhæfingu í 1-3 mánuði eftir markmiðum hverju sinni. Þessi lína hefur það að markmiði að meta raunhæfi þess að hefja markvissa starfsendurhæfingu. Þátttaka einstaklings telst m.a. fullnægjandi ef honum tekst að mæta og taka þátt í þjónustu sem nemur 12-15 tímum á viku.
• Einstaklingsmiðuð þverfagleg starfsendurhæfingarlína. Lengri endurhæfing í 6 mánuði sem hægt er að framlengja um aðra 6 mánuði, samtals allt að 12 mánuðir. Á þessari línu er unnið heildstætt með vanda einstaklings með það að markmiði að einstaklingur fari aftur út á vinnumarkaðinn. Gerð er krafa um 15-20 tíma virkni á viku í bæði hópúrræðum og einstaklingsmiðaðri þjónustu.
Hjá Birtu starfa félagsráðgjafar, íþrótta- og heilsufræðingur og sálfræðingur.
Ráðgjafar Birtu veita frekari upplýsingar um endurhæfinguna. Hægt er að fá samband við ráðgjafa í síma 560-2055 eða á birta@birtastarfs.is