Sumarfrí hjá Birtu

Lokað verður hjá Birtu Starfsendurhæfingu Suðurlands á tímabilinu 30. júní – 8. ágúst. 

Ráðgjafar verða við frá og með mánudeginum 11. ágúst. Starfið byrjar frá og með þriðjudeginum 12. ágúst fyrir þá sem eru nú þegar í endurhæfingu. 

Ef þú hefur áhuga á að komast í starfsendurhæfingu hjá Birtu vinsamlegast hafðu þá samband við ráðgjafa hjá Virk í s. 480-5000.

Ársfundur Birtu

Ársfundur Birtu var haldinn í Fjölheimum á Selfossi fimmtudaginn 31. október sl. 

Fundurinn var vel sóttur af fulltrúum frá stofnaðilum Birtu. Ný stjórn var kjörin á fundinum. María Kristjánsdóttir og Sigurlín Guðný Ingvarsdóttir sitja áfram, ný í stjórn koma Ragnheiður Hergeirsdóttir, Gills Einarsson og Anna Margrét Guðmundsdóttir. Ásmundi Sverri Pálssyni, Má Guðnasyni og Mögnu F. Birni voru þökkuð vel unnin störf sl. ár. 

 

Atvinnulínan byrjar miðvikudaginn 30. október

Atvinnulínan byrjar miðvikudaginn 30. október. Á hana eru skráðir 15 þátttakendur. 

Atvinnulínan verður rúmar 13 vikur og lýkur í byrjun febrúar. Í fyrstu vikunni verður kynning á því sem framundan er og hópefli  🙂

Mætingar í viku 1 sem hér segir:

Miðvikudagur, kynning og hópefli kl. 13-15 í stofu 201.

Fimmtudagur kl. 11.30 í Sportstöðinni (kynning á stöðinni) og svo hópefli kl. 13-15 í stofu 205.

Föstudagur, hópefli kl. 10-12 í stofu 205.

Linkur inn á lokaðan hóp á fésbók fyrir hópinn : https://www.facebook.com/groups/171748199691895/?fref=ts

Atvinnulína

Ný lína hjá Birtu- atvinnulína byrjar miðvikudaginn 30. október.

Atvinnutengda línan hentar vel einstaklingum sem hafa verið fjarverandi frá vinnumarkaði í einhvern tíma en eru ekki að glíma við mikinn heilsubrest. Atvinnulínan er gott tækifæri fyrir einstaklinga til að koma rútínunni í lag, styrkja sig líkamlega, bæta andlega líðan og kynnast fjölbreyttum hliðum vinnumarkaðarins samhliða atvinnuleit. Markmiðið er að þátttakendur eflist og verði tilbúnari í atvinnuleit og í starf á almennum vinnumarkaði. 

Haust 2013

Nú styttist í að starfið hjá Birtu fari á fullt eftir sumarfrí. Haustönnin er jafnframt áttunda önnin okkar hjá Birtu.  🙂

Á þessum tíma hafa margir náð góðum árangri og snúið aftur út á vinnumarkaðinn. Mikil og góð reynsla hefur safnast hjá ráðgjöfum sem nýtist vel í starfinu. 

Starfið í haust verður með svipuðu fyrirkomulagi og síðastliðið ár. Áhersla er á einstaklingsmiðaða endurhæfingu en jafnframt boðið upp á ýmis námskeið sem einstaklingum í Birtu býðst að sækja. 

Þá er jafnframt í þróun styttri leið í endurhæfingu sem byrjar í haust. Stuðningur við einstaklinga sem hafa átt í erfiðleikum með að stunda nám vegna heilsubrests, kvíða og þunglyndis hefur verið í stöðugri þróun hjá Birtu og verður nú í haust í boði heildstæð þjónusta fyrir þann hóp sem felur í sér stuðning frá ráðgjafa, hreyfingu, félagslega ráðgjöf og sálfræðiviðtöl. 

Til þess að komast að í Birtu þarf að hafa samband við ráðgjafa hjá Virk. Sú breyting hefur orðið á tilvísunum og umsóknum að ráðgjafar hjá Virk greina og meta þörf fyrir þjónustu og vísa  einstaklingum áfram til Birtu. Hægt er að panta tíma hjá ráðgjafa Virk í síma 480-5000.  Ráðgjafar Birtu veita einnig upplýsingar í síma 560-2030. 

 

Fréttir úr starfinu

 Eftir páskafrí hafa ný námskeið verið að byrja hjá okkur eða halda áfram. Sem fyrr miða námskeiðin hjá Birtu að því að bæta heilsu þátttakenda almennt, bæði líkamlega, andlega og félagslega 🙂

Líkamleg heilsa:

Nýtt árangursnámskeið hófst 8. apríl. Árangur er lífstílstengt námskeið þar sem farið er yfir hollt mataræði, gildi hreyfingar og fleira heilsutengt. Þátttakendur á námskeiðinu voru mældir í upphafi og lok námskeiðs, fengu sérsniðin æfingaprógrömm í ræktina og sett voru niður markmið með hverjum og einum. Markmið þátttakenda voru ólík, sumir vildu létta sig og aðrir styrkja sig. Allir höfðu þó það sameiginlega markmið að auka hreyfingu og borða hollari mat.
Í lok námskeiðsins voru veitt verðlaun fyrir árangur og mætingar og fengu fjórir þátttakendur verðlaun.

Gönguhópur heldur áfram á sama tíma, á miðvikudögum kl. 11, farið er frá Sundlaug Selfoss eftir hópfund.

Tækjasalur heldur áfram á sama tíma, Beta er með viðveru í Sportstöðinni á þriðjudögum kl. 13 og fimmtudögum kl. 10.

Nýr hópur byrjaði á matreiðslunámskeiðinu Hollt og gott með Gurrý og eru þau á fimmtudögum kl. 13.

Andleg heilsa:

Hamingjan er hérer nýtt námskeið sem byrjaði 23. apríl og verður vikulega fram á sumar, á þriðjudögum kl. 10. Á námskeiðinu munum við meðal annars skoða hamingju Íslendinga og hvað gerir okkur hamingjusöm. Ræða  tengsl og sambönd við annað fólk og af hverju þau skipta okkur máli. Við munum ræða tilfinningar og seiglu, skoða styrkleika okkar og ýmislegt fleira.

Kristín Bragadóttir sálfræðingur heldur áfram með námskeiðið bætt andleg líðan, á miðvikudögum kl. 13. Á námskeiðinu munum við fara yfir hvernig við getum aukið virkni okkar, dregið úr kvíða og ýmislegt fleira.

Félagsleg heilsa og tengsl við vinnumarkaðinn:

Fjármálaráðgjöf verður aftur í boði í maí og kemur þá Katrín Garðarsdóttir fjármálaráðgjafi aftur til okkar.

Námskeiðið að eflast í starf er byrjað aftur eftir páska. Námskeiðið er á föstudögum kl. 10. Markmiðið eftir páska er að virkja krafta okkar og nýta þá. Námskeiðið er byggt upp á fyrirlestrum, hópfundum, vinnustaðaheimsóknum og starfskynningum.

Hópfundir verða áfram vikulega á undan gönguhópnum, á miðvikudögum kl. 10.

Önnur ráðgjöf og þjónusta sem er í boði fyrir þátttakendur:

Sandra Guðmundsdóttir félagsráðgjafi veitir félagslega ráðgjöf, Elísabet Kristjánsdóttir íþrótta- og heilsufræðingur veitir ráðgjöf varðandi líkamlega endurhæfingu og Kristín Bragadóttir sálfræðingur er með sálfræðiviðtöl.

 

Síðasta vikan fyrir páskafrí

Nú er starfið hjá Birtu að mestu komið í páskafrí. Glerlistarhópur klárar sitt námskeið fyrir páska en önnur námskeið eru komin í frí.
Í liðinni viku kláraðist 6 vikna matreiðslunámskeið í nýja kennslueldhúsinu í Fjölheimum. Langþráður draumur um verklega kennslu samhliða fræðslu um heilbrigt mataræði hefur loksins ræst 🙂 Nýtt námskeið hefst eftir páska.

Starfið hefst á ný miðvikudaginn 3. apríl. Mæting í Sportstöðina kl. 11. Þar á eftir ætlum við að fá okkur súpu í Eldhúsinu v/Samkaup og svo verður hópfundur strax á eftir.

Námskeiðin hefjast svo á nýjan leik í vikunni 8.-12. apríl.

 

Vaskur hópur frá Birtu fór í heimsókn í Jötunn vélar á Selfossi í dag. Guðmundur Þór Guðjónsson fjármálastjóri hjá Jötunn vélum tók á móti okkur og fór með hópinn um fyrirtækið og sagði okkur frá starfseminni :-).  Hjá Jötunn vélum starfa 22 starfsmenn við fjölbreytt störf. Það sem kom hópnum helst á óvart var hversu stórt fyrirtækið er og hversu viðamikil starfsemin er. Kunnum við Jötunn vélum bestu þakkir fyrir frábærar mótttökur  :-). 

Haustönn 2012 að hefjast

Mánudaginn 3. september hefst haustönn Birtu. Í fyrstu vikunni mæta þátttakendur eins og hér segir:

Mánudag: Byrjendur kl. 10.30 á kynningarfund. Kl. 13-14.30 mæta bæði byrjendur og framhaldshópur. 

Miðvikudag: Allir milli kl. 10-12.

Fimmtudag: Allir milli kl. 10-12. 

Mæting er í gamla Sandvíkurskóla. 

Í fyrstu vikunni ætlum við að gefa okkur góðan tíma í að kynnast starfsemi Birtu og hvað við erum að fara að gera í vetur. Þátttakendur fá tækifæri til að aðlagast hópnum áður en námskeiðin hefjast svo eitt af öðru. 

Hlökkum til að sjá ykkur  🙂

Beta og Sandra