Síðasta vika fyrstu lotu á vorönn
Nú er síðasta vika fyrstu lotunnar á vorönn 2012 að klárast.
Þemað í fyrstu lotunni var jákvæður janúar og voru þátttakendur meðal annars með vinnustofu um hamingjuna og jákvæða sálfræði. Þá hafa verið hópfundir, námskeiðið Efling í starfi fór af stað, og fyrirlestrar um andlega og líkamlega líðan. Nokkrir þátttakendur fóru á byrjendanámskeið í silfursmíði á vegum Fræðslunets Suðurlands og líkaði mjög vel. Þá hafa þátttakendur verið duglegir í hópþjálfun í ræktinni og þeir allra hörðustu hafa mætt í gönguhóp.
Fjörugir föstudagar eru að hefjast hjá okkur föstudaginn 3. febrúar en á fjörugum föstudögum fáum við til okkar gestakennara sem kynna fyrir okkur fjölbreytta heilsurækt. Næst komandi föstudag kemur Kristjana Árnadóttir og kynnir fyrir okkur yoga. Tíminn verður í Sportstöðinni kl. 11.
Í næstu viku mæta allir þátttakendur í viðtal hjá Söndru eða Betu og hreyfingin verður á sínum stað. 13. febrúar hefst síðan lota númer tvö hjá Birtu. Drög að stundatöflu eru komin á heimasíðuna en endanleg tafla verður birt í næstu viku. Henni verður dreift í einstaklingsviðtölum.