Hjá Birtu er boðið upp á fjölbreytt námskeið og fræðslu. Á morgnana, milli kl. 9-12 er svokallað grunnstarf Birtu, auk hreyfingar, en í það mæta allir þátttakendur (nema þeir sem eru í námi eða vinnutengingu á þeim tíma). Í grunnstarfi Birtu er boðið upp á fræðslu um bætta andlega líðan, lífsstílstengda fræðslu, sjálfseflingu, hópfundi o.fl. Eftir hádegið eru lokaðir hópar og námskeið sem þátttakendur velja sér út frá hvað hentar viðkomandi. Dæmi um lokaða hópa/námskeið eru; PEERS félagsfærninámskeið, Björg bjargráð í tilfinningastjórnun, kvíðahópar, félagskvíðanámskeið, karlahópar, konuhópar, skapandi starf, samkenndarhópur, hópmarkþjálfunarhópar, næringarstuðningshópur. Einu sinni á ári er boðið upp á ADHD námskeið í samstarfi við ADHD samtökin.

Námskeið og lokaðir hópar í boði hjá Birtu á vorönn 2025

Hér má sjá yfirlit yfir námskeið og lokaða hópa sem eru í boði á vorönn 2025:

PEERS® námskeið í félagsfærni

PEERS® félagsfærniþjálfun er gagnreynt hópnámskeið fyrir fullorðna einstaklinga með einhverfu og/eða annan félagslegan vanda. Kenndar eru aðferðir til að auka færni í samskiptum og áhersla er lögð á:

  • Að kynnast, finna og velja góða vini
  • Að bæta samtalsfærni: Að hefja og koma inn í samræður, að fara út úr samræðum, viðeigandi rafræn samskipti, viðeigandi notkun á spaugsemi
  • Að skipuleggja og taka þátt í hittingum og samkomum
  • Góða siði varðandi stefnumót og að stofna til rómantískra sambanda
  • Að takast á við ágreining í samskiptum, einelti og höfnun

Fyrir hverja er PEERS?

Einstaklinga eldri en 16 ára.

Einstaklinga með einkenni einhverfu (ekki er krafist greiningar) eða annan félagslegan vanda.

Einstaklinga sem eiga í vanda með að stofna til vinskaps og að viðhalda vinskapi.

Þátttaka er sjálfviljug og verður áhugahvöt að vera til staðar hjá þátttakendum fyrir því að mæta á námskeiðið, og vilji til að læra um og auka félagsfærni.

Áður en námskeiðið hefst fara fram inntökuviðtöl/skimanir þar sem m.a. er farið yfir áhugahvöt þátttakenda, væntingar og fleiri praktíska þætti.

Hvernig er uppbyggingin á PEERS félagsfærninámskeiði?

PEERS námskeið í félagsfærni samanstendur af þátttakendahópi með 10-12 einstaklingum á fullorðinsaldri. Hist er vikulega yfir 16 vikna tímabil. Hverjum tíma fylgja heimaæfingar sem einstaklingar safna í möppu,  þar gefst færi á að æfa sig í þeirri færni sem kennd er í tímum.

Námskeiðið byggist á fræðandi kennslu með skýrum reglum og skrefum. Farið er eftir handbók til þess að tryggja að inntak tímanna byggist á gagnreyndu efni, en þó er alltaf hafður sveigjanleiki í huga og efni aðlagað að uppbyggingu hópsins. Félagsfærnin sem kennd er hefur vistfræðilegt réttmæti (ecological validity) að því leyti að reglurnar og skrefin eru almennt notuð af fólki sem á í farsælum félagslegum samskiptum. Ákveðin lykilorð (buzzwords) koma endurtekið fram til að auðvelda orðaforðann, þar sem flókin félagsleg hegðun er útskýrð í fáum orðum.

Í byrjun hvers tíma er farið yfir heimaæfingar til þess að ganga úr skugga um að þátttakendur séu að nota færnina sem kennd er utan hóptímanna, og að meta hvað sé að virka eða ekki hjá hverjum þátttakanda. Hlutverkaleikir (role-play) eru hluti af hverjum tíma þar sem sýnikennsla á sér stað um viðeigandi og óviðeigandi hegðun í félagslegum aðstæðum, og í kjölfar þeirra er spurt þátttakendur að félagsþjálfunarspurningum sem er ætlað að auka félagslegan skilning með því að auðvelda þátttakendum að bera kennsl á félagsleg merki og að skilja sjónarmið annara. Atferlisæfingar og endurgjöf á frammistöðu eru einnig hluti af hverjum tíma þar sem þátttakendur þurfa að nota færnina sem lærð er með því að æfa sig og endurtaka.

Hvenær, hvar og hverjir?

Kennarar/leiðbeinendur á námskeiði eru Brynja Guðmundsdóttir sálfræðingur hjá Birtu og Thelma Sif Kristjánsdóttir iðjuþjálfi hjá ELJU virkniráðgjöf hjá fjölskyldusviði Árborgar.

Dags- og tímasetning vor 2025: Miðvikudaga frá kl. 13-15, tímabilið 15. janúar – 7. maí (frí 16. apríl vegna páskafrís) .

Aðstaða: Tímarnir fara fram í stofu 107 í Fjölheimum, Tryggvagötu 13, 800 Selfossi.

 

Lífssaga – fortíðin, nútíðin, framtíðin

Að skrifa lífssögu um líf þitt og það sem þú hefur gengið í gegnum getur hjálpað þér að finna tilgang og gildi í þeirri upplifun sem þú hefur orðið fyrir og þeirri reynslu sem þú býrð yfir. Það hjálpar þér líka að skipuleggja hugsanir þínar og nota þær til að vaxa áfram. Fólk sem fer yfir lífssögu sína er líklegra til að finna aukinn tilgang, sem getur haft jákvæð áhrif á líðan.

Leiðbeinandi: Brynja Guðmundsdóttir

 

Leirlist

Námskeiðið er í fjögur skipti í senn og er kjörið tækfæri til að gleyma sér og vera skapandi.

Leiðbeinandi: Steinunn Birna

Til að fá meiri upplýsingar eða til að skrá sig á námskeið þarf að ræða við ráðgjafa. 

Virkniúrræði í boði hjá Fræðslunetinu á vorönn 2025

 Persónuleg stefnumótun/Personal planning, positive future – jákvæð sálfræði – fjarnámskeið á ensku og íslensku, staðnámskeið á íslensku

Á námskeiðinu er farið yfir sjálfsmat hvers og eins, styrkleika og árangur. Notaðar eru aðferðir jákvæðrar sálfræði til að horfa á það sem gott er og efla það jákvæða. Unnið verður að framtíðarsýn, gildismati, framtíðin kortlögð og afhent verkfæri til að búa til framtíð sína eins og hver og einn vill.

Leiðbeinandi: Þóra Valný Yngvadóttir

Tími: 22. til 31. jan., miðvikudaga og föstudaga kl. 9:30 – 11:45 fjarnámskeið á ensku

Tími: 22. til 31. janúar, miðvikudagar og föstudagar kl. 12:30 – 14:45 fjarnámskeið á íslensku

Tími: 18. til 28. febrúar, þriðjudaga og föstudaga kl. 13:00 – 15:15  staðnámskeið á íslensku

Verð: 49.500 kr

 

Stafræn hæfni

Farið verður yfir möguleika snjalltækja, bæði spjaldtölvu og síma. Skemmtileg smáforrit skoðuð sem geta hjálpað í daglegu lífi. Farið verður yfir myndavélina og myndasafn tækjanna og hvernig er hægt að halda skipulagi á myndefni. Einnig geta þátttakendur óskað eftir því að skoða eitthvað sem vekur áhuga og/eða er hagnýtt í leik og starfi.

Leiðbeinandi: Leifur Viðarsson

Tími: 18. febrúar til 4. mars, þriðjudaga og fimmtudaga kl. 14:00-16:00

Verð: 52.600

 

Lífsstíll og verkjastjórnun

Námskeiðið byggir á líkamsmiðaðri og sálrænni nálgun á verkjum. Með aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar (HAM) og núvitundar verða kynnt og bjargráð sem hjálpa til við að takast á við verki í daglegu lífi og stuðla að heilbrigðum lífsstíl. Markmið námskeiðsins er að hjálpa þátttakendum að: öðlast betri skilning og stjórn á verkjum, draga úr ákefð og tíðni verkja, draga úr áhrifum verkja og veikinda á líf þátttakenda, takast á við kveikjur þannig að einstaklingar upplifi færri bakslög og aukna stjórn í daglegu lífi og að auka lífsgæði.

Leiðbeinandi: Kristín Júlía Hannesdóttir/Brynja Guðmundsdóttir

Tími: 25. febrúar til 1. apríl – þriðjudagar – kl. 13:00-15:00

Tími: 29. apríl – þriðjudagur kl. 13:00-15:00 – Eftirfylgd og bakslagsvarnir

Verð: 72.600

 

Uppleið – vottuð námsleið, stað- og fjarnámskeið

Námið byggir á hugrænni atferlismeðferð. Markmiðið er að auka færni einstaklinga til að takast á við hamlandi líðan með því að nýta sér aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar (HAM) í daglegu lífi og breyta þannig hugsun, tilfinningum og hegðun og í kjölfarið viðhalda betri líðan.

Leiðbeinandi: Karen Guðmundsdóttir, sálfræðingur

Tími: 3. mars til 3. apríl, þriðjudaga og fimmtudaga kl. 14:00-16:00 – staðnámskeið. ATH viðtöl eru mánudaginn 3. mars.

Verð: 10.000 kr. Námið er niðurgreitt af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

 

HAM og núvitund hugræn atferlismeðferð

Námskeið byggt á hugrænni atferlismeðferð til að takast á við almenna líðan. Þátttakendur fá fræðslu (HAM) sem gengur út á að læra að þekkja tengsl hugsana, tilfinninga og hegðunar. Farið verður í undirstöðuatriði núvitundar sem leið til að takast á við tilfinningar og streitu. Markmiðið er að þátttakendur öðlist grunnfærni í að beita þeim aðferðum sem kenndar verða til að hafa áhrif á eigin líðan. Þátttakendur vinna heimaverkefni á milli skipta.

Leiðbeinandi: Karen Guðmundsdóttir, sálfræðingur

Tími: 19. mars til 16. apríl, miðvikudagar kl. 13:00-15:00 – staðnámskeið

Verð: 49.600 kr.

Augnablikið – núvitundarnámskeið – staðnámskeið

Núvitund í daglegu lífi. Hvað er núvitund og hentar hún mér? Námskeið um núvitund og lífeðlisfræðileg áhrif þess að iðka núvitund. Þátttakendur fá tækifæri til að kynnast þeim leiðum sem hægt er að fara í iðkun núvitundar. Rannsóknir sýna að núvitund gagnast vel til að takast á við t.a.m. tilfinningar, streitu, svefn og verki. Einnig að iðkun á núvitund getur gefið fólki betra innsæi í tilfinningar sínar, betri athygli, minni og einbeitingu.

Leiðbeinendur: Karen Guðmundsdóttir, sálfræðingur og Sólveig Fríða Kjærnested, sálfræðingur

Tími: 5. til 14. maí, mánudaga og miðvikudaga kl. 14:00-16:00

Verð: 56.100

Raunfærnimat í almennri starfshæfni

Almenn starfshæfni er sú hæfni sem einstaklingur þarf að búa yfir eða tileinka sér til þess að taka á virkan þátt þátt í samfélaginu, vera á vinnumarkaði og þróast í starfi. Hún er mikilvæg í öllum störfum og hana má flytja í annað samhengi og milli mismunandi starfa og starfsgreina. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur skilgreint 11 hæfniþætti sem saman mynda almenna starfshæfni á íslenskum vinnumarkaði (aðlögunarhæfni, ábyrg nýting, árangursrík samskipti, jafnréttisvitund, mat og lausnir, upplýsingatækni, samvinna, skipulagshæfni, starfsþróun, upplýsingalæsi og vinnusiðferði). Hæfniþættirnir eru þrepaskiptir í samræmi við hæfniramma um íslenska menntun.

Raunfærnimatið hentar fólki sem er á krossgötum, er leitandi eða er að velta fyrir sér nýju starfi. Einnig fólki í starfsendurhæfingu sem t.d. hefur orðið fyrir kulnun. Ferlið getur reynst mjög eflandi þar sem fólk áttar sig á eigin styrkleikum, sækir jafnvel um störf sem það treysti sér ekki til áður, fær vinnu eða hefur nám.

Ferlið: Skimunarviðtal hjá náms- og starfsráðgjafa, hópavinna í 4-5 skipti, matssamtal, niðurstöðuviðtal hjá náms- og starfsráðgjafa.

 

Íslenskunámskeið: Ræða við ráðgjafa

 

Önnur úrræði

Náms- og starfsráðgjöf

Áhugasviðskannanir

Námsbrautir FA

Grunnmennt

Menntastoðir

Félagsliðagátt

Leikskólaliðabrú

Stuðningsfulltrúabrú

Stakir áfangar á þessum námsleiðum

Raunfærnimat s.s. sjúkraliðar, almenn starfshæfni, þjónustubrautir (félagsliði, leikskólaliði og stuðningsfulltrúi) og matartækni

Birt með fyrirvara um breytingar og innsláttarvillur.

Til að fá meiri upplýsingar eða til að skrá sig þarf að ræða við ráðgjafa.